11/05/2018

1. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar: Stefán Ómar Jónsson

 

Nafn: Stefán Ómar Jónsson, 63 ára
Menntun: Viðskiptalögfræði, frá Aalborg Universitet
Búsettur: Tröllateigi 24
Fjölskylda: Ógiftur, þrjú uppkomin börn og 6 barnabörn
Atvinna: Stjórnsýsluráðgjafi og verkefnastjóri rafrænnar stjórnsýslu
Fyrri störf: Bæjarstjóri, bæjarritari, fjármálastjóri, framkvæmdastjóri
Áhugamál: Golf, stangaveiði, hjólreiðar, útivist
Samfélagið: Í stjórn Sóknarnefndar Lágafellssóknar
Leiðarljós: Heilindi og gleði í hjarta

Ég flyt í Mosfellssveitina 2 ára gamall og hef búið hér allar götur síðan ef frá eru skilin nokkur ár.

Unglingsárin í sveitinni voru frábær, hér ríktu staðarhöfðingjar eins og Jón á Reykjum, Haukur á Helgafelli o.fl. Lárus heitinn skólastjóri í Brúarlandi kenndi okkur stafina og Gylfi Pálsson hélt uppi aganum í Gaggó Mos sem þá var í Brúarlandi.

Við tóku svo fullorðinsárin, stofnun fjölskyldu og ráðist var í að eignast fyrstu íbúðina í Byggingarsamvinnufélagi ungs fólks í Mosfellsbæ. Verslunarmennska var mér í blóð borin og starfaði ég í smásöluverslun í nokkur ár þar til brautin lá inn í sveitarstjórnarmálin og þá fyrst sem sveitarstjóri í Garði 1980 og sem bæjarstjóri á Selfossi 1982. Síðan tóku við nokkur ár sem framkvæmdastjóri heildverslunar.

Þá var komið að framhaldsmenntun í Danmörku og af því loknu höfust störf sem fjármálastjóri hjá Landssímanum ohf. og sem einn af sex framkvæmdastjórum hans frá 1998. 2000 tók ég við sem fjármálastjóri á nýjan leik og þá hjá dótturfyrirtæki Landssímans og Opinna Kerfa sem í dag er blómlegt fyrirtæki og heitir TrackWell.

Þaðan lá leiðin aftur inní sveitarstjórnarmálin og nú hjá mínum heimabæ Mosfellsbæ. Þar starfaði ég sem bæjarritari og framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs til 2014.

Vinnuævin er því hingað til nokkurn veginn jöfn á milli þess að starfa í einkageiranum og hjá hinu opinbera.

Ég er þakklátur öllu samferðafólki á þessari vegferð. Núna er ég tilbúinn að starfa sem bæjarfulltrúa fyrir heimabæinn minn Mosfellsbæ, þar sem ég heiti því að starfa af heilindum og með gleði í hjarta.