11/05/2018

16. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar: Björn Óskar Björgvinsson

Björn Óskar Björgvinsson.

Ég er fæddur að Klausturhólum í Grímsnesi 1947 og verð því 71 árs á þessu ári.  Ég er giftur Sólveigu Júlíusdóttur sjúkraliða, sem starfar á Reykjalundi.  Við eigum 5 börn og 15 barnabörn.

Ég varð stúdent frá Verzlunarskóla Íslands vorið 1970, og þá strax um haustið hóf ég nám í endurskoðun.  Varð löggiltur endurskoðandi 1978 og hef starfað við það æ síðan, nú síðast í samstarfi við aðra endurskoðendur hjá Íslenskum endurskoðendum Bíldshöfða slf.

Hef endurskoðað ýmis fyrirtæki og félagasamtök, bæði stór og smá á þessum næstum 48 ára starfsferli.

Hef starfað með ýmsum kórum, en söngur hefur verið áhugamál hjá mér frá unglingsaldri.  Var einn af stofnendum Árnesingakórsins í Reykjavík árið 1967, en við flutning í Mosfellsbæ árið 1982 byrjaði ég að syngja í Karlakórnum Stefni og söng þar í allmörg ár.  Syng nú með Frímúrarakórnum.  Var einn af stofnendum Íslensku Óperunnar árið 1980, og hef verið endurskoðandi hennar frá upphafi þar til á síðasta ári.

Ég hef verið félagi í Lionsklúbbi Mosfellsbæjar um árabil en var áður í Lionsklúbbnum Ægi í Reykjavík.   Þá var ég í skólanefnd Tónlistarskóla Mosfellsbæjar frá 1990 til 1998 og í fræðslunefnd 1998 – 2001.