11/05/2018

17. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar: Valgerður Sævarsdóttir (Vallý)

Ég er 30 ára og hef búið í Mosfellsbæ frá 5 ára aldri. Sambýlismaður minn er Jóhann Ingi Jónsson, íþróttafræðingur, og er hann fæddur og uppalinn í Mosfellsbæ. Saman eigum við tvö börn, Emilíönu Ösp, 7 ára, og Sævar Leó, 3 ára, og einn hund.
Ég hef alltaf haft gaman af að vinna með fólki og sérstaklega börnum. Ég hef unnið á leikjanámskeiðum, leikskóla, félagsmiðstöð, sambýli og við liðveislu.
Eftir menntaskóla fór ég í Hússtjórnarskóla Reykjavíkur áður en ég skráði mig í háskólanám. Ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands vorið 2014. Ég starfaði á kvenna- og barnasviði Landspítalans með skóla og fyrst eftir útskrift en undanfarin tvö ár hef ég unnið á heilsugæslu.
Ég hef mikinn áhuga á öllu sem tengist börnum, föndra mikið og baka, hef alltaf verið í íþróttum – frjálsum íþróttum, fótbolta og blaki en æfi núna fullorðinsfimleika, veit fátt betra en að fá mér góðan kaffibolla með vinkonunum og eyða tíma með fjölskyldunni.
Ég er stolt af því að vera Mosfellingur og trúi því að með heiðarleika og jákvæðni að leiðarljósi og með því að nýta þekkingu og reynslu fólks úr ólíkum áttum, getum við gert bæinn okkar enn betri.