11/05/2018

2. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar: Margrét Guðjónsdóttir

HEIÐARLEIKI – ÞEKKING – LÝÐRÆÐI

Ég heiti Margrét Guðjónsdóttir og er lögfræðingur frá Háskóla Íslands, héraðsdómslögmaður og löggiltur fasteigna- og skipasali.

Þegar á mig var skorað að starfa með hópi fólks sem á sér það eitt að markmiði að koma að uppbyggingu og þjónustu við Mosfellinga, með lýðræði, heiðarleika og þekkingu að vopni, var ekki annað hægt en að vera með. Hópi sem nefnir sig Vini Mosfellsbæjar því í nafninu felst í raun allt sem segja þarf.

Ég hef brennandi áhuga á velferðarmálum almennt og sama er að segja um málefni aldraðra. Eldri borgarar, sem er nú fólk á besta aldri, eiga skilið að bæði sé á þau hlustað, þau aðstoðuð þarfnist þau þess en einnig eru þau ómetanlegur fjársjóður reynslu og þekkingar sem við getum og eigum að nýta okkur, séu þau tilbúin að fræða okkur hin. Skipulagsmál heilla mig jafnframt mjög. Ég hef búið í Mosfellsbæ frá árinu 1989 og fylgst með gríðarlegri uppbyggingu sem átt hefur sér stað og þá sérstaklega á síðustu árum. Í þeim málum þurfum við að vera sérstaklega vakandi svo bærinn okkar tapi ekki þeim sjarma sem hann hefur haft á sér, nokkurs konar sveit í borg.

Ég ákvað seint á lífsleiðinni að hefja nám í lögfræði eftir að hafa starfað á lögmannsstofum til fjölda ára, bæði sem framkvæmdastjóri og skrifstofustjóri. Að hefja nám að nýju á þessum aldri var krefjandi en mjög skemmtilegt. Ég kynntist fólki á öllum aldri og einn af mínum nánasta vinkonuhópi eignaðist ég þar. Í náminu sá ég sérstaklega hvað aldur er afstæður, við getum átt svo vel saman á hvaða aldri sem er og sama hver bakgrunnurinn er.

Ég veit að við getum aldrei gert öllum til hæfis en ég er reiðubúin til að starfa að heilindum og nýta þekkingu mína úr námi og starfi, ef ég get komið að góðum verkum í þessum fallega bæ okkar.

Ég veit að ef við stöndum saman og ræðum málið, hvort sem er í skólamálum, skipulagsmálum eða hverju öðru sem okkur öll varðar, leyfum öllum þeim mannauði sem Mosfellsbær býr yfir að njóta sín og koma að málum þá getum við gert bæinn okkar enn betri fyrir íbúa hans, jafnt unga sem aldna.

Á þeim nótum vil ég starfa og vona ég að þú, kjósandi góður, viljir vera með okkar fjölbreytta hópi, látir í þér heyra og hjálpir okkur að vinna að öllum góðum málum, stórum sem smáum.

Nánar um málefni Vini Mosfellsbæjar á: vinirmos.is