Heiðarleiki – Þekking – Lýðræði

Ég heiti Stefán Ómar Jónsson og er viðskiptalögfræðingur frá háskólanum í Álaborg.

Fyrir um einu ári síðan var komið að máli við mig hvort ég gæfi kost á mér til samfélagsstarfa fyrir Mosfellsbæ, það er að bjóða fram krafta mína við komandi bæjarstjórnarkosningar 2018. „Þú þekkir þetta jú allt saman“, var gjarnan sagt. Áskoranir til mín í þessa veru urðu svo fleiri og fleiri þar til ég ákvað að slá til í byrjun þessa árs. Fljótlega varð það svo ofan á í umræðunni að ég myndi leiða óháð framboð. Hugmyndin að nafninu Vinir Mosfellsbæjar kom fram og undirbúningur fór í gang.

Rétt er að ég þekki vel til málefna Mosfellsbæjar bæði sem íbúi til margra áratuga og síðar sem bæjarritari Mosfellsbæjar til rúmlega 12 ára eða þar til gerð var skipulagsbreyting og samningur um starfslok.

Í breytingum felast tækifæri. Tækifæri, sem ég hefði ekki fengið að óbreyttu, til  að koma að borðinu sem kjörinn fulltrúi og nýta innsýn mína í málefni og rekstur Mosfellsbæjar. Nýta þekkingu mína og reynslu af sveitarstjórnarmálum sem fyrrverandi bæjarstjóri og bæjarritari.

Áherslumál mín eru gagnsæi, opin og skilvirk stjórnsýsla og íbúalýðræði. Gagnsæi er lykilþáttur til að tryggja að upplýsingar að baki opinberum ákvörðunum séu opnar og aðgengilegar öllum. Ég vil einnig beita mér fyrir víðtæku íbúalýðræði og koma upp þeim aðferðum og tæknilausnum sem til þess þarf.

Ekki má gleyma því að Mosfellsbær er risastórt fyrirtæki þar sem starfa rúmlega 650 starfsmenn. Þennan mannauð þarf að rækta og gefa svigrúm til frumkvæðis í þágu Mosfellsbæjar, viðskiptavina hans og starfsmannanna sjálfra.

Ég leiði Vini Mosfellsbæjar til þessara bæjarstjórnarkosninga með heilindi og gleði í hjarta.