11/05/2018

4. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar: Vilhelmína Eva Vilhjálmsdóttir (Villý)

 

Ég varð fertug á þessu ári en flyt í Mosfellbæ 5 ára gömul og hef búið hér síðan. Kynnist manninum mínum, Steven Páli Rogers, þegar ég var nítján ára og hann var nú ekki alveg á því að búa í þessari sveit til að byrja með en var fljótur að skipta um skoðun og vill hvergi annarsstaðar vera í dag. Við búum í Rituhöfða ásamt Söru Maríu, 10 ára dóttur okkar, og tveimur hundum.

Ég er menntaður grafískur- og vefhönnuður með BSc í Interactive Media Design frá The Art Institute í Bandaríkjunum. Ég er einnig hálfnuð með viðburðastjórnun hjá Háskólanum á Hólum. Ég hef starfað síðustu 13 ár sem sjálfstætt starfandi hönnuður og síðustu rúm 3 ár sem framkvæmdastjóri fimleikadeildar Aftureldingar.

Þegar kemur að áhugamálum hef ég mjög gaman að föndri og ýmissi handavinnu, ásamt hönnun, bílum/mótorsporti, lestri, tónlist og ferðalögum. Ferðaðist mikið sem barn vegna vinnu foreldra minna sem gaf mér tækifæri á að kynnast heiminum aðeins.

Ég kom að sjálfboðaliðastörfum tengdu mótorsporti og bílum í tæp 20 ár og sat einnig í stjórn Fimleikadeildar Aftureldingar áður en ég tók við stöðu framkvæmdastjóra.

Ég trúi því að heiðarleiki, samvinna og bjartsýni skili manni langt í lífinu. Veikist alvarlega þegar ég var ung og það hefur kennt mér að heilsan mín er ekki sjálfsögð en ég lærði að halda ótrauð áfram og taka engu sem sjálfsögðum hlut.