25/03/2019

Fluttar tillögur

Tillaga um að laða nýútskrifaða kennara til starfa

Á 736. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 3. apríl sl. lagði bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar, Stefán Ómar Jónsson, fram tillögu undir heitinu „Nýliðun og nýútskrifaða kennara til starfa“.


Tillagan var svohljóðandi:
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkir að stofna starfshóp sem fái það verkefni að móta með hvaða hætti Mosfellsbær geti laðað nýútskrifaða kennara til starfa í skólum Mosfellsbæjar í framtíðinni.
Bæjarráði verði falið að skipa starfshópinn sem skoði meðal annars hvernig samstarfi skóla Mosfellsbæjar við mennta- og menningarmálaráðuneytið svo og háskóla, vegna fyrirhugaðs starfsnáms kennaranema, verði best háttað. Starfshópnum verði falið að vinna tillögur um hvernig Mosfellsbær geti laðað til starfa nýútskrifaða kennara, til dæmis með því að veita þeim laun á starfstíma þeirra hjá Mosfellsbæ og/eða styrk þegar þeir hefja störf að lokinni útskrift og þá gegn því að þeir skuldbindi sig til þess að starfa í tiltekinn tíma hjá bænum.


Á ofangreindum fundi bæjarstjórn var samþykkt samhljóða að vísa tillögunni til afgreiðslu bæjarráðs.
Á 1396. fundi bæjarráðs var samþykkt samhljóða að vísa tillögunni til umsagnar framkvæmdastjóra fræðslusviðs þar sem hún er nú til meðferðar.


Greinargerð með tillögunni:
Tilgangur þessarar tillögu er að Mosfellsbær bregðist við þeirri fyrirsjáanlegu samkeppni sem ljóst er að verði um kennara um allt land og skólar Mosfellsbæjar geti þannig mannað kennararstöður sem mest og best menntuðum kennurum.

Fái ofangreind tillaga brautargengi gæti Mosfellsbær, um leið og hann veldi sér og tæki á móti kennaranemum á meistaraári í starfsnám sem ríkið kostar þá til, gert við þá samkomulag um að styrkja þá enn frekar, skuldbindi þeir sig til þess að koma til starfa hjá Mosfellsbæ að útskrift lokinni.

Það er ljóst, samanber kynningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins að við Mosfellsbæ, eins og öðrum sveitarfélögum, blasir að óbreyttu við að erfitt verður að fá til starfa menntaða kennara og miðar þessi tillaga að því að bregðast við því ástandi með því að gera kennaranemum á meistaraári kjaratengt tilboð um að koma til starfa hjá Mosfellsbæ að námi loknu.

Tillagan byggir á aðgerðum í menntamálum sem mennta- og menningarmálaráðherra kynnti nýverið og eru tillögurnar byggðar á tillögum sem unnar voru í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Háskólans á Akureyri, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Heimili og skóla og Samtök iðnaðarins.


Stefán Ómar Jónsson
Bæjarfulltrúi L lista Vina Mosfellsbæjar