25/03/2019

Fluttar tillögur

Tvöföldun aðreina inn á Vesturlandsveg

Á 473. fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar sem jafnframt er umferðarnefnd lagði fulltrúi Vina Mosfellsbæjar, Stefán Ómar Jónsson, fram tillögu um að samhliða tvöföldun vegarins á þessum kafla verði hugað að því að tvöfalda aðreinar inn í hringtorgið við Reykjaveg / Þverholt, annars vegar aðrein frá Reykjavegi og hins vegar aðrein frá Þverholti.

Fráreinar eru þegar tvöfaldar sem auðveldar akstur úr hringtorginu og inn á Reykjaveg og inn í Þverholt. Á sama hátt þarf að auðvelda og gera akstur öruggari inn í hringtorgið.

Á annatímum myndast oft miklar raðir á Reykjavegi / Þverholti þar sem gjarnan myndast tvöfaldar raðir á aðreinum sem alls ekki eru hannaðar fyrir tvöfalda umferð. Þetta skapar hættu á umferðarslysum og er hamlandi fyrir flæði umferðarinnar.

Loftmynd sem sýnir umræddar aðreinar inní hringtorg við Reykjaveg / Þverholt

Skipulagsnefnd samþykkti að vísa tillögu Vina Mosfellsbæjar til gerðar deiliskipulags fyrir Vesturlandsveg. Skipulagsnefnd samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að hún samþykki að beina þeirri ósk til Vegagerðarinnar, að samhliða tvöföldun Vesturlandsvegar milli Skarhólabrautar og Reykjavegar, verði hugað að tvöföldun aðreina inn í hringtorg móts við Reykjaveg og Þverholt. Deiliskipulag af Vesturlandsvegi hefur nú verið uppfært í samræmi við tillöguna og ósk um tvöföldun fráreina hefur verið send Vegagerðinni.