Greinar frambjóðenda

  • Fagleg handleiðsla

    Á undanförnum árum hefur orðið mikil fjölgun á nemendum í grunn- og leikskólum bæjarins. Með auknum fjölda hafa skapast nýjar áskoranir meðal kennara og skólastjórnenda, margar þeirra krefjandi og hafa þær sýnt fram á nauðsyn þess að efla og styrkja skólafólk með auknu aðgengi að sérfræðingum. Það er fátt eins lamandi og erfitt í starfi með börnum og að lenda í alvarlegum aðstæðum sem þú veist ekki hvernig á að leysa. Það þarf ekki meira en að stjórnendur séu úr húsi á fundi til að upplifa að stuðningur, á ögurstundu, sé ekki fyrir hendi.

    Nú, þegar hægt hefur á nemendafjölgun í grunnskólum er gott að nýta tímann til að fara yfir undanfarin ár, skoða það sem vel hefur tekist til og hverju má standa betur að – með eflingu á þjónustu Fræðslusviðs. Fara þarf í þarfagreiningu í hverjum skóla, meta hvaða þjónustu þarf beint inn í skólana, hvaða þjónustu skólarnir geta sameinast um og verið miðlægt staðsett á Fræðslusviði. Við í Vinum Mosfellsbæjar leggjum ríka áherslu á teymi sérfræðinga sé ráðið inn á Fræðslusvið, sem fari út í skólana og sé kennurum og stjórnendum til stuðnings. Í teyminu geta verið ráðgjafar á borð við kennsluráðgjafa, hegðunarráðgjafa, sálfræðinga,félagsráðgjafa og ráðgjafarþroskaþjálfa sem geta stutt beint við bakið á kennurum. Benda má á sambærileg verkefni í Reykjavík, Betri borg fyrir börn og þjónustu Farteyma . BBB verkefnið, eins og það er kallað,gengur út á það að færa þjónustuna nær notendum og hafa kennsluráðgjafar og hegðunarráðgjafar viðveru í skólum hverfisins, á tilteknum tímum, og geta þar tekið til vinnslu mál sem bíða og unnið jafnóðum og þau koma upp. Sem dæmi má nefna að skóli biður um aðstoð vegna hegðunar nemanda. Ráðgjafar koma inn í skólann, fylgjast með nemandanum, ræða við kennara og leggja til áætlun. Eftir henni er unnið í 1-2 vikur. Þá er staðan endurmetin. Í mörgum tilfellum er hægt að loka málum þarna. Þessi viðvera hefur verið mikill styrkur fyrir nemendur og starfsfólk, vinnsla mála hefst fyrr, sem þýðir að færri málum er vísað til Þjónustumiðstöðva til vinnslu. Þjónusta Farteyma er þjónusta við nemendur með fjölþættan vanda þar sem unnið er með nemandann í nærumhverfi hans. Allt kapp er lagt á að málin séu unnin í skólanum, ef það gengur ekki upp er teymið með aðsetur og getur tekið nemendur til sín. Með dyggri aðstoð og ríkri eftirfylgd náum við betri árangri,börnunum okkar til heilla.

  • Skilvirkari almenningssamgöngur

    Það er ljóst að Borgarlínan komi ekki upp í Mosfellsbæ fyrr en um eða upp úr árinu 2030. Eigum við að bíða eftir umbótum á almenningssamgöngum eða eigum við gera eitthvað strax? Við hjá Vinum Mosfellsbæjar viljum kasta fram þeirri hugmynd hvort ekki væri hagkvæmara að stóru dísel strætisvagnarnir sem nú ganga á milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar fari eingöngu um Vesturlandsveg í Háholt og til baka um Vesturlandsveg. Í stað þess að þræða þröngar íbúðagötur með tilheyrandi mengun og sliti á götum. Í innanbæjarakstri verði þess í stað notast við litla, umhverfisvæna söfnunarvagna sem verði í stanslausum ferðum um hverfin, safni saman farþegum og skili í Háholt þar sem að stærri vagnar taka við og flytji fólk áfram til Reykjavíkur. Þessa söfnunarvagna má svo nýta áfram þegar Borgarlínan kemur. Við fyrstu sýn gæti þessi aðferð lækkað kostnað Mosfellsbæjar til almenningssamgangna, aukið þjónustustig og síðast en ekki síst minnkað kolefnisspor þessarar þjónustu. Vinir Mosfellsbæjar vilja beita sér fyrir því að hugmyndin verði skoðuð í samráði við notendur þjónustunnar og íbúa alla í anda íbúalýðræðis.

    Viljum við ekki öll vera vinir – umhverfisins?

  • Líf í bæinn

    Nú þegar Hlégarður hefur verið opnaður á ný getum við loksins farið að nota aðstöðuna til að njóta lista og menningar sem í boði er í bænum.

    Það er mikil söngmenning i bænum okkar. Við erum rík af kórum og ekki síður listafólki sem bæði er búið að gera garðinn frægan eða er að gera tónlist og skapa allskonar list

    Hvernig væri að opna Hlégarð nokkra daga í mánuði og gefa fólki færi á að nýta húsið sem vettvang til að koma sér á framfæri? Það væri hægt að bjóða kórum upp á að hafa opnar æfingar, halda sýningar listafólks eða aðra sköpun.

    Þessir viðburðir yrðu opnir fyrir Mosfellinga og aðra gesti. Nú nýverið var stofnað lista og menningafélag Mosfellinga sem er ætlað að sameina listamenn og gera meira úr menningu bæjarins.

    Aðgangseyrir að viðburðum gæti verið hóflegur og runnið til þessa nýja og mikilvæga félags.

    Ég get sagt út frá sjálfum mér sem meðlim í Karlakór Kjalnesinga og Stormsveitinni að ég væri meira en til í að fá að koma fram og syngja án gjalds en styrkja gott málefni í staðinn, og ég held ég tali fyrir munn margra því fyrir okkur er það allra skemmtilegasta að koma fram fyrir áheyrendum.